Innanfélagsmót SJÓR, Grundarfirði 7. maí

Þá er loksins komið að innanfélagsmótinu okkar. Í ár verður þetta með öðru sniði en venjulega því við þurfum, fyrst og fremst, að afla tekna fyrir félagið.

Fyrirkomulagið verður þannig að ekki verður um einstaklingskeppni að ræða heldur veiða allir, á viðkomandi bát í sama karið (eða vonandi MÖRG kör!)

Keppni verður á milli báta og fá þrír aflahæstu skipstjórar verðlaun.

Trúnaðarmenn hafa sömu skyldum að gegna og venjulega;

• Að sjá til þess að drykkjarföng og björgunarvesti séu um borð
• Að sjá til þess að röðun á báta sé rétt
• Að skipting fari fram á miðjum veiðitíma
• Að bátur sé þrifinn
• Að kör séu merkt bát við löndun.

Skráning á mótið
Veiðimaður skráir sig á sjorek.is (INNANFÉLAGSMÓT 2022 – SKRÁNING) eða tilkynnir þátttöku til formanns SJÓR ( ljosafl@simnet.is ).

Frestur til skráningar rennur út þann 30. apríl en við hvetjum félagsmenn til að skrá sig fyrr en seinna.

Ef það eru einhverjar spurningar varðandi mótið er hægt að hafa samband við Lúther, formann SJÓR í síma 893 4007 eða senda tölvupóst á ljosafl@simnet.is.

Þar sem ekki verður um eiginlegt lokahóf að ræða þá fellur mótsgjald niður.

Ekki verður boðið uppá nesti en drykkjarvatn verður um borð í bátum fyrir keppendur.

DAGSKRÁ

Laugardagur 7. maí
Kl. 06:00 Mæting á bryggju og þar verða mótsgögn afhent
Kl. 07:00 Haldið til veiða
Kl. 14:00 Veiðarfæri dregin upp og haldið til hafnar

Sunnudagur 8. maí
Kl. 15:00 Við hittumst í Höllinni og förum yfir árangur mótsins en eins og fyrr sagði þá verða ekki veitt verðlaun. Kaffi, gos og léttar veitingar í boði.

Við hvetjum félagsmenn eindregið til að koma og veiða fyrir félagið sitt.

Kveðja, Stjórn SJÓR

Minning

Kæri „Hjörleifur okkar á Patró“ er látinn. 

Okkur langar okkur að minnast frábærs félaga og einstakrar hjálparhellu okkar SJÓR-félaga varðandi mótin okkar á Patreksfirði í gegnum tíðina.

Hann var ætíð boðinn og búinn að aðstoða á allan þann hátt sem hann mögulega gat. Áður en eiginlegar strandveiðar hófust gat virkilega tekið á að finna nógu marga báta fyrir mót. Þá lá Hjörleifur í símanum sólarhringum saman og fór ófáar ferðirnar á Tálknafjörð eða Bíldudal við bátaleitina. Hann var lausnamiðaður og afskaplega duglegur að útvega báta og við allan annan undirbúning. Það kom alveg fyrir að „korter í mót“ vantaði enn báta og við vorum orðin mjög stressuð. En Hjörleifur hélt ró sinni, sagði okkur að afskrifa nú ekkert, það væri nægur tími og hann ætti inni nokkra greiða!

Alltaf tók hann á móti okkur með bros á vör þegar við „ruddumst“ inná skrifstofuna hans með allt okkar hafurtask og ónæði. Aldrei gátum við fundið að við værum fyrir á nokkurn hátt.

SJÓR þakkar Hjörleifi kærlega fyrir góðar og skemmtilegar stundir í gegnum tíðina og vottar fjölskyldu og aðstandendum sínar innilegustu samúðarkveðjur.

Aðalfundur SJÓR yfirstaðinn

Eins og flestir vita var aðalfundur SJÓR haldinn á fimmtudaginn sl., 17. febrúar í Höllinni, Grandagarði. 

Mættir voru 15 manns og var virkilega gaman að sjá félagana aftur eftir langt Covid-hlé. Vonandi förum við að koma félagsstarfinu í gang og að ekki sé talað um mótin okkar.

Dagskráin var nokkuð hefðbundin og helstu tíðindi frá fundinum voru formannsskipti og ný stjórn tók við sem er þá skipuð svona:

Lúther Einarsson, formaður
Kjartan Gunnsteinsson, varaformaður
Marinó Njálsson, ritari
Ágústa S. Þórðardóttir, gjaldkeri
Gilbert Ó. Guðjónsson, meðstjórnandi

Varamenn:
Þorgerður Einarsdóttir
Einar Lúthersson

Eins og glöggir sjá þá fóru Elín og Pálmar úr stjórn og þó okkur þyki mikil eftirsjá af þeim þá er það mjög skiljanlegt að fólk hugi að sér og sínum eftir áratuga starf í þágu félagsins. Þau lofuðu að hverfa ekki alveg og munu verða okkar innanhandar og aðstoða eftir þörfum. Stjórn SJÓR þakkar þeim innilega fyrir frábær störf og ómetanlegan dugnað og elju.

Það var farið yfir ársreikninga og árið í ár skilur á milli feigs og ófeigs ef svo má að orði komast. Mótin seinustu tvö ár hafa ekki komið vel út fjárhagslega fyrir félagið og nú þurfum við að gera allt sem við getum til að rétta kúrsinn af. 

Á fundinum voru teknar fyrir tillögur SJÓL um breyttar veiðireglur og breytingar á lögum og um þær tillögur var kosið. Formaður mun fara með það umboð á aðalfund SJÓL sem fyrirhugaður er 5. mars.

Með bestu kveðju, stjórn SJÓR

Íslandsmeistarar SJÓL 2021 og aðrir verðlaunahafar

Skrifað 4. desember, 2021 – Höfundur: Sjól

Í dag afhenti formaður SJÓL í félagsheimili Sjóstangaveiðifélag Reykjavíkur (Höllinni) verðlaun og krýndi nýja íslandsmeistara 20021 fyrir Aðalmót sumarsins. 

Haldin voru 6 mót af 8 mögulegum. Engin íslandsmet voru sleginn þetta sumarið en hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar í flipanum „íslandsmeistari“ á heimasíðunni okkar eins eru þar upplýsingar um stærstu fiskar pr. tegund ofl.

Breytingar tóku gildi á verðlaunum frá Sjól og eru þær þannig að núna eru veitt verðlaun fyrir aflahæsta veiði- mann og konu, Ísfell lagði til tvo farandsbikara sem taka við þeim sem fyrir var og sendum við þeim kærar þakkir fyrir framlagið. Hin breytingin er að framvegis eru veitt verðlaun fyrir aflahæsta skipstjórann og fær aflahæsti skipstjórinn einnig veglegt úr að gjöf frá Gilberti Ó. Guðjónssyni og sendum við Gilberti sérstakar þakkir fyrir framlagið.

SJÓL sendir þeim Jóni Einarssyni og Beatu Makillu innilegar hamingjuóskir með íslandsmeistaratitilinn sem og þeim sem unnu til annarra verðlauna fyrir frábæran afrakstur sumarið 2021.

Íslandsmeistari Karla
1. Jón Einarsson, SJÓSNÆ
2. Pétur Sigurðsson, SJÓAK
3. Wojciech M. Kwiatkowski, SJÓSNÆ

Íslandsmeistari Kvenna
1. Beata Makilla, SJÓSNÆ
2. Björg Guðlaugsdóttir, SJÓSNÆ
3. Guðrún Jóhannesdóttir, SJÓAK

Aflahæsti karl
1. Jón Einarsson, SJÓSNÆ
2. Pétur Sigurðsson, SJÓAK
3. Kristbjörn Rafnsson, SJÓSNÆ

Aflahæsta kona
1. Björg Guðlaugsdóttir, SJÓSNÆ
2. Dröfn Arnadóttir, SJÓR
3. Sigríður Rögnvaldsdóttir, SJÓSIGL

Aflahæsti skipstjórinn
1. Pétur Sigurðsson, SÆRÚN
2. Viktor Sverrisson, SÆDÍS
3. Leiknir Kristjánsson, PÍLA

Flestar fisktegundir
1. Arnar Eyþórsson, SJÓSKIP
2. Gilbert Guðjónsson, SJÓR
3. Jón Einarsson, SJÓSNÆ

Stærsti Fiskurinn
1. Guðrún Jóhannesdóttir, SJÓAK
2. Smári Jónsson, SJÓR
3. Baldvin S. Baldvinsson, SJÓAK