Opið hús á Sjómannadaginn 11. júní nk, að Grandagarði 18

Við verðum með opið hús á Sjómannadaginn og bjóðum gestum og gangandi að kíkja við, skoða veiðigræjur, fræðast um sjóstangaveiði og fá sér kaffisopa. Líkt og í fyrra munum við sjá um hina vinsælu bryggjuveiði fyrir krakka, sjá nánar á www.hatidhafsins.is

Ný stjórn SJÓL

Á aðalfundi SJÓL sem haldinn var 13. maí síðastliðinn var kosin ný stjórn.

Þetta árið var kosinn nýr formaður til tveggja ára. Elín Snorradóttir fékk óskoraðan stuðning frá aðildarfélögunum en Elín hafði um árabil verið formaður Sjóstangaveiðifélags Reykjavíkur með góðum árangri og verið öflugur talsmaður fyrir íþróttinni.

Stefán B. Sigurðsson sem hafði verið formaður SJÓL síðustu 10 árin gaf ekki lengur kost á sér til formanns. Stefán mun vera stjórninni áfram innan handar í gegnum það kæruferli sem er í gangi gagnvart Fiskistofu, sem og öðrum málum er varðar störf formanns fyrst um sinn. Fyrir hönd allra félagsmeðlima óskum við Stefáni velfarnaðar og þökkum innilega fyrir allt það framlag sem Stefán hefur gefið af sér í gegnum árin.

Samhliða þessari breytingu var Sigurjón Már Birgisson, SJÓSKIP kosinn ritari og
Guðrún Rúnarsdóttir, SJÓAK gjaldkeri. Hvorugt þeirra hefur gegnt þessum stöðum áður en Sigurjón var áður gjaldkeri félagsins. Við bjóðum Guðrúnu velkomna og hlökkum til samstarfs með henni næstu misserin.

Nýr skoðunarmaður reikninga var einnig kosinn á fundinum og er það Hallgrímur Smári Skarphéðinsson formaður SJÓSIGL sem tekur við hlutverki Sigfúsar Karlsonar, SJÓAK.

IMG_1308

Íslandsmeistaramót sumarsins og Fiskistofa

Kæru félagar.

Eins og þið vitið kannski flest þá hefur gengið á ýmsu varðandi það að fá samþykktar veiðiheimildir fyrir sumarið 2017.

Fiskistofa telur að kostnaður við mótshald hjá sjóstangaveiðifélögunum í SJÓL sé ekki í samræmi við reglugerð um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum og hefur á þeim grundvelli ákveðið að veita ekki leyfi til að halda sjóstangaveiðmót hjá aðildarfélögum Sjól í sumar. Einnig neitar Fiskistofa að taka til baka ákvörðun um afturvirk ákvæði o.fl.

Það má líka koma fram að þetta er ekki fyrsta árið sem sem þessi stofnun gerir ýmsar óvæntar breytingar og athugasemdir varðandi félögin og starfsemi þeirra.

SJÓL hefur, undanfarna mánuði, átt í ítrekuðum bréfaskiptum og fundahöldum við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Fiskistofu til að ná mætti sáttum svo mótin gætu farið fram.

Því miður hefur ekki orðið neinn árangur af þessum sáttaumleitunum og nú er svo komið að ákveðið hefur verið að fara í formlegt kæruferli og freista þess að fá ákvörðun Fiskistofu hnekkt, jafnframt að fá niðurstöðu í þau mál sem ágreiningur stendur um.

Það er ótrúlegt að staðan skuli vera þessi og við setjum inn tilkynningar um leið og eitthvað er að frétta af málinu.

Kveðja, stjórn SJÓR

 

 

Sumarið framundan …

Kæru félagar.

Þvi miður hefur Fiskistofa ekki úthlutað okkur veiðidögum, enn sem komið er og þ.a.l. ekkert hægt að ákveða með sumarið. Við látum vita um leið og málin skýrast. Þangað til brýnum við bara krókana og hnýtum flugur, er það ekki?

Aðalfundur SJÓL 8. apríl 2017

Ágætu félagsmenn.

Í ljósi þess verkefnis sem aðildarfélög SJÓL standa í gagnvart úthlutun á veiðiheimild frá Fiskistofu var tekin ákvörðun um að fresta Aðalfundi sem halda átti 11. mars og þess í stað að stefna á 8. apríl. Ákvörðun stjórnar var tekin á þeim grundvelli að á meðan félög innan SJÓL að undanskyldu Sjóís hafa ekki fengið vilyrði um að halda sjóstangaveiðimót þá megi gera ráð fyrir að fundarefni er varðar veiðiárið 2017 gæti orðið marklaus.

Stjórn Sjól hefur átt stöðufundi með Fiskistofu og Atvinnuvegaráðuneytinu um hvernig leysa megi úr þeirri stöðu sem félögin eru stödd í en um er að ræða synjum sem hefur ekki verið beytt frá því að sjóstangaveiðifélög hófu starfsemi fyrir rúmri öld síðan.